Ávarp Magnúsar Jónssonar við opnun málverkasýningar Sveinbjörns H. Blöndal,sumarið 2011.

Sýningin var sett upp í samstarfi við fjölskyldu Sveinbjörns. Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir lánuðu myndir á sýninguna. Sýningin var styrkt af Menningarsjóði Norðurlands vestra.


Góðir gestir.

Það er okkur öllum mikið gleðiefni að fá til Skagastrandar yfirlitssýningu á myndlist Sveinbjörns Blöndal. Eins og hér má sjá er um talsvert viðamikla sýningu að ræða og myndlist sem talar sjálf sínu litríka myndmáli.

Sveinbjörn var listamaðurinn á Skagaströnd um langt árabil. Hann var sá eini á þeim tíma sem við þekktum hér á Skagaströnd sem hafði gengið í listaskóla og hafði þar að auki þessa snilligáfu í notkun forms og lita sem birtist okkur svo vel á þessari sýningu.

Við sem ólumst upp á Skagaströnd á þeim árum sem Sveinbjörn var upp á sitt besta fengum að kynnast listfengi hans með mismunandi hætti. Ég man eftir að við strákarnir fórum í sérstaka ferð niður í bryggjuskúrana þar sem hafði verið teiknað með svartri krít á asbestklæðninguna, mynd af Skafta Fanndal að takast á við Nykurinn í Torfdalsvatni og aðra mynd þar sem sést aftan á Svein á Bergi sem var auðþekktur á baksvipnum og belgvettlingunum. Þá var ógleymanleg mynd sem Sveinbjörn málaði til að merkja Fellsrétt þar sem Óli í Brautarholti er sýndur með sínum auðþekkta prófíl með hrútinn í klofinu.

Þessar skemmtilegu skopteikningar Sveinbjörns voru auðvitað og eru frábært innlegg í listasögu hans. Ég minnist þess að hafa spurt hann að því þegar við vorum að vinna saman við flíslögn í dvalarheimilinu Sæborg hvort hann væri hættur að teikna skopmyndir. Svarið var einfalt og greyptist vel í minni. Já ég er alveg hættur þessu. Síðasta myndin sem ég teiknaði var af Didda í ruslinu. Ég var korter að teikna Didda en þrjá daga að teikna ruslið.

Mér hefur alltaf fundist þetta svar hans lýsa honum sjálfum mjög vel. Þessi skarpa hugsun og að sjá skoplegu hliðar tilverunnar, líka sinnar eigin og kunna að koma því svo skemmtilega í orð. Sveinbjörn bauð stundum fólki í vinnustofu sína á Fellsbrautinni þar sem hann sýndi frábærar myndir, unnar með þeirri tækni og natni sem einkennir verk hans. Hann sjálfur taldi hins vegar á þeim ýmsa galla og var helst á að mála bara yfir þær. Ég held að við þurfum ekki að litast lengi um hér í salnum til að átta okkur á að það var eins gott að hann lét það ógert.

En þannig var hann gagnrýninn á eigin verk og hafði til að bera þetta sérstaka skynbragð á blæbrigði lita og forms sem er eitt af því sem gerir muninn á listamönnum og öðru fólki. Við skynjum sjálfsagt veröldina á mismunandi hátt og sjáum hana í mismunandi litum og ljósi. Sumir hafa þá gáfu að nema litrófið með þessari næmni á meðan aðrir virðast sjá allt í nánast sauðalitunum. Þeir sem þekktu Sveinbjörn kynntust líka næmleika hans fyrir litum og litbrigðum og tóku eftir því þegar hann rak jafnvel í rogastans þegar hann sá liti eða litasamsetningu sem honum fannst á einhvern hátt vond. Ég held að vondur litur hafi farið jafn illa í Sveinbjörn og falskur tónn fór í tónskáldið Mozart.

Já Sveinbjörn var listamaður Skagastrandar. Hann hefur kannski ekki skynjað sig með þeim hætti og sjálfsagt hefur lítið sjávarþorp við ysta haf haft mismikinn skilning á list og listfengi. Kannski voru þorpið og hann of lengi að skilja hvort annað. Þegar hann fékkst hins vegar loks til að halda sýningu á verkum sínum þá stóð ekki á viðbrögðum. Þá kom í ljós að mjög margir höfðu fullan hug á að fá að njóta málverka hans því þau seldust upp á fyrstu sýningu og sala á þeim hélst nokkuð jafnt eftir það.

Á þeim verkum sem hér eru og víða að kominn er ljóst að myndirnar voru góðar fjárfestingar. Ég veit að á mörgum heimilum standa nú auðir veggir þar sem málverkin voru sem voru lánuð á þessa sýningu. Ég á von á að bæði sýningin og söknuður eftir verkum til að veita litríki og fegurð inn á viðkomandi heimil auki enn gildi þessara verka fyrir hvern og einn.

Einhversstaðar stendur skrifað að til þess að skilja raunverulega eitthvað eftir sig í lífinu þurfi maður annað hvort að gróðursetja tré eða skrifa bók. Ég hef með árunum komist að þeirri niðurstöðu að þessi skilgreining er hvergi nærri fullnægjandi eða góð. Til dæmis sýnist mér að það sé heldur betur að skila nokkru til komandi kynslóða að skilja eftir sig góða myndlist sem lifir áfram meðal fólks og heldur áfram að tala máli sínu við hugarheim þeirra sem eftir koma.

Við erum öll hluti af stærri heild og höfum áhrif hvert á annað meðan við fetum okkur gegnum lífið. Þessi áhrif eru oftast lítt sýnileg og sjaldnast gerum við okkur grein fyrir því hvaðan hugmyndir og áhrif koma. Oftast nær er hugarheimur okkar samsettur úr ýmsum brotum þekkingar og upplifunar sem við öflum okkur á lífsleiðinni. Ég velti því fyrir mér hvernig áhrif Sveinbjörns hafi verið á viðhorf Skagstrendinga til listar og listsköpunar. Getur verið að það að hafa listmálara starfandi í byggðinni hafi jákvæð áhrif á hugsun okkar og viðhorf til listsköpunar almennt. Ég hallast að því en við getum ekki mælt það á öðru en sjálfum okkur, hvert og eitt. Ég held að áhrif Sveinbjörns hafi smitast til okkar og gert okkur til dæmis móttækilegri fyrir nýjum hugmyndum og gildi listsköpunar og skapandi hugsunar. Kannski er tilvist listamiðstöðvar á Skagaströnd að hluta því að þakka að hugsun fólks var opnari fyrir listsköpun en ella.

Undirbúningur þessarar sýningar hefur staðið um nokkuð langan tíma. Við fengum úthlutun úr menningarsjóði Norðurlands vestra síðastliðið haust . Strax í upphafi var samið við Lárus Ægi að hafa umsjón með framkvæmdinni, sem hann hefur annast af þeim dugnaði og skarpskyggni sem hefur gjarnan einkennt hann. Fjölskylda Sveinbjörns hefur staðið þétt að baki undirbúningsins og í raun gert mögulegt að taka saman svo viðamikla sýningu sem hér birtist okkur. Ég hygg að á engan sé hallað þótt ég nefni Elsu Láru sérstaklega sem hefur síðustu viku lagt hart að sér við undirbúning og uppstillingu verkanna. Þegar leitað var til eigenda verka um að lána þau til sýningarinnar voru viðbrögð mjög góð og lýsa kannski best því viðhorfi sem fólk hefur til myndlistar og verka Sveinbjörns. Við höfum leitað bæði til starfsfólks sveitarfélagsins og annarra um aðstoð við uppsetningu verkanna og hvarvetna fengið hinar bestu viðtökur og úr öllu hefur verið leist með greiðum hætti. Öllu þessu fólki eru færðar alúðarþakkir fyrir framlag þeirra, aðstoð og þá hvatningu sem er í því fólginn að finna samheldni og jákvæðni við framkvæmd verkefnisins. Bestu þakkir.

Góðir gestir með mikilli virðingu fyrir listamanninum Sveinbirni Blöndal segi ég þessa sýningu formlega opnaða og bið Birnu Blöndal að taka við þessari blómaskreytingu fyrir hönd fjölskyldunnar með hamingjuóskum og bestu þökkum fyrir samstarf og hjálp.

 


Sveitarfélagið Skagaströnd stóð fyrir yfirlitssýningu á verkum Sveinbjörns H. Blöndal í íþróttahúsinu á Skagaströnd frá 23. júlí til 14. ágúst 2011. Þar mátti sjá hluta af verkum Sveinbjörns sem málara, en hann bjó stóran hluta ævi sinnar á Skagaströnd. Sýndar voru teikningar, vatnslitamyndir, akríl- og olíumálverk.
Fara aftur á yfirlitssýningu